Getuleysi sveitarstjórnarmanna

Getuleysi sveitarstjórnarmanna

 

Fólk er kosið í sveitarstjórnir, kosið til að taka ákvarðanir og axla ábyrgð á ákvarðanatöku sinni. Nú hefur ,,Óþægileg" grein í kjarasamningi sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara (FG) frá 2004 hefur dúkkað upp. Þessi grein segir:  ...Að meta eigi hvort almenn verðlags- eða kjaraþróun, á tímabilinu nóvember frá 2004 til september 2006, gefi tilefni til einhverra aðgerða. 

Verðlagsþróunin (verðbólga) á tímabilinu hefur verið um 9,0% eða 6,5% yfir markmiðum Seðlabankans.  Launanefnd sveitarfélaganna (LN) í umboði sveitarstjórnarmanna hefur boðið kennurum 0,75% hækkun um áramótin 2006-2007 til að mæta almennri verðlags- og kjaraþróun, 0,75%.  Aðrir aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um bætur vegna verðlags- og kjaraþróunar, bætur sem námu 7,8% á 190.000 kr. meðallaun.  LN býður kennurum meira en 10 sinnum lægri prósentur. 

Nú hafa ýmsir sveitarstjórnarmenn tjáð sig opinberlega um samskipti sveitarfélaganna við kennara og bæði Halldór Halldórsson (formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga) og Stefán Jón Hafstein hafa sagt að nú verði að nást sátt við kennara. Í hverju er sú sátt fólgin? Er hún fólgin í því að tala ekki við kennara í 8 mánuði og svo þegar þeim þóknast að láta heyra í sér þá eru það 0,75% sem hin mikla sátt á að nást um? Þegar aðrir hafa samið um 10 sinnum hærri prósentur.

Því miður virðast alltof fáir sveitarstjórnarmenn ráða við að axla þá ábyrgð sem þeir eru kosnir til og í raun ráða þeir ekki við að fara með jafn stóran og mikilvægan málaflokk sem grunnskólinn er. Þess vegna sorglegt að hlusta á þessa menn og konur tala um að heilsugæslan eigi að fara yfir til sveitarfélaganna þegar getuleysið í málefnum grunnskólans er algert.  Nú þurfa sveitarstjórnarmenn að hisja upp um sig buxurnar, hvar á landinu sem er, og láta verkin tala og hætta að etja Launanefndinni á foraðið.  Ábyrgðin er ykkar.

 

Jón Pétur Zimsen grunnskólakennari


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband